
Rannsóknir
Ég hef lengi haft áhuga á rannsóknum og þróun verkfræðilausna á verkefnum sem tengjast læknisfræði. Sérþekking mín er á sviði myndflokkunar (e. image segmentation) og myndmátunar (e. image registration) og hef ég þróað aðferðir fyrir bæði heilamyndir og myndir af mjaðmagrind.
Rannsóknir mínar í dag snúast um þróun sjálfvirkra reikniaðferða við myndgreiningu á segulómmyndum af heila til þess að leita kerfisbundið að breytileika í byggingu heilans með það að markmiði að:
- finna sjúkdómseinkennandi breytileika í heila til að stuðla að einstaklingsmiðaðri meðferð ákveðinna sjúkdóma; og
- brúa læknisfræðilega myndgreiningu og erfðafræði með kerfisbundinni greiningu á vægum breytileika í heila barna með bæði þekkta og óþekkta erfðasjúkdóma.
Undanfarið ár hefur meginrannsóknarverkefni mitt snúist um að þróa myndgreiningaraðferð til greiningar á sjúkdómi, sem kallast fullorðinsvatnshöfuð (e. normal pressure hydrocephalus).